Vel heppnuð námskeið á Álftanesi

Dagana 11. – 12. ágúst hélt félagið Uppbygging sjálfsaga og Álftanesskóli námskeiðið Uppeldi til ábyrgðar I fyrir nýja kennara og starfsmenn skólans. Kennarar námskeiðsins voru Guðlaug Erla Gunnarsdóttir skólastjóri Ingunnarskóla og Hildur Karlsdóttir umsjónakennari í 6. bekk.

 Á námskeiðinu var kennd sú Uppbyggingarstefna sem Álftanesskóli hefur unnið eftir frá haustinu 2002. Hún er hugmyndakerfi sem í felst bæði aðferð og stefnumörkun skóla til bættra samskipta. Uppbyggingarstefnan leggur áherslu á samskipti fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og virðingu fremur en stjörnugjöf. Hún kennir sjálfsaga og hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Hún þjálfar börn og unglinga í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum.

Skólinn hélt einnig framhaldsnámskeið um Uppbyggingarstefnuna dagana 19. – 20. ágúst fyrir alla starfsmenn skólans með Judy Anderson. En hún hefur starfað til margra ára náið með Diane Gossen sem er upphafsmaður þeirrar hugmyndafræði sem Uppeldi til ábyrgðar byggir á. Saman hafa þær sett saman Uppbyggingarstefnuna og miðlað henni áfram í gegnum bókarskrif, greinaskrif og námskeiðshöld. Judy hefur heimsótt Álftanesskóla fimm sinnum á undanförnum árum en á námskeiðinu núna í ágúst var farið nánar í Uppbyggingarstefnuna og kenningar og aðferðir tengdar henni. Kennarar og starfsmenn skólans unnu ýmis skemmtileg verkefni á námskeiðinu til að auka skilning sinn á viðfangsefninu og kynnast nýjum leiðum til að nýta það í starfi.