Um félagið

Félagið Uppbygging sjálfsaga – Uppeldi til ábyrgðar var stofnað í mars 2008. Þá höfðu innan við 10 skólar hér á landi ákveðið að vinna samkvæmt hugmyndafræði þeirra Diane Gossen og Judy Anderson. Meðal starfsmanna þessara skóla var mikið rætt um nauðsyn þess að hafa einhvern vettvang þar sem fólk gæti lært hvert af öðru og talað saman. Stofnfundurinn var svo haldinn í Álftanesskóla og þar mættu um 60 manns. Nú höfum við ekki lengur tölu á fjölda þeirra grunn- og leikskóla sem starfa samkvæmt hugmyndafræði Uppbyggingar sjálfsaga – Uppeldi til ábyrgðar. Þar sem allt starf félagsins byggðist í upphafi á sjálfboðavinnu fannst okkur nauðsynlegt að félagsaðildin væri einstaklingsbundin þar sem skólar eiga ekki gott með að leggja fram sjálfboðastarf af þessu tagi. Skólar geta hins vegar verið styrktaraðilar félagsins. Félagið hefur staðið fyrir fjölda af námskeiðum, og aðstoðað hópa við að skipuleggja námsferðir til Ameríku. Nú rekum við einnig bókaútgáfu til að auðvelda fólki að nálgast efni tengt hugmyndafræðinni. Á aðalfundi félagsins sem jafnan er haldinn í maí hefur verið lögð áhersla á að vera með kynningar frá 3-5 skólum á þeirra helstu verkefnum. Öll verkefni okkar snúast um að auðvelda áhugasömum starfsmönnum í fræðslumálum vinnuna sína. (texti Jóna Ben.)