Leiðbeinendur

Leiðbeinendur Uppbyggingar sjálfsaga í stafrófsröð:

Elín Yngvadóttir hefur verið Restitution-leiðbeinandi frá árinu 2013. Hún hefur haldið tugi Uppbygging I (Restitution I) námskeiða í leik- og grunnskólum víða um land auk kynninga í Noregi og Finnlandi einnig hefur hún unnið að gerð starfsmannasáttmála á almennum vinnustöðum.

Elín hefur um árabil starfað í stjórn félagsins Uppbygging sjálfsaga og tekið þar þátt í fjölbreyttu starfi, skipulagt ráðstefnur, námskeið og fundi og átt víðtækt samstarf við uppbyggingarfólk erlendis.

Elín hefur víðtæka reynslu sem skólastjórnandi og grunnskólakennari til nærri 20 ára en hún starfar nú sem námsbrautastjóri á mannauðssviði hjá Isavia.

Netfang: eliny (hjá) simnet.is

Fanney Dóróthea Halldórsdóttir hefur verið Restitution-leiðbeinandi frá árinu 2013. Hún hefur haldið tugi Uppbyggingu 1 ( Restitution I) námskeiða í leik- og grunnskólum víða um land auk kynninga á aðferðum Uppbyggingar ábyrgðar og sjálfsaga hér á Íslandi, í Noregi, Wales og Þýskalandi.

Fanney hefur sem skólastjóri innleitt uppbyggingarstefnuna með starfsfólki grunnskóla og unnið eftir hugmyndafræði Uppbyggingar ábyrgðar og sjálfsaga í yfir 10 ár. Hún hefur unnið með skólum að innleiðingu og ráðgjöf við uppbyggingarstarf víða um land.

Fanney situr í stjórn félagsins Uppbygging sjálfsaga og hefur starfað með félaginu í þó nokkur ár auk þess sem hún hefur víðtæka reynslu sem grunnskólakennari og skólastjórnandi í um 20 ára. Fanney er sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.

fanney (hjá) hafnarfjordur.is

Guðlaug Erla Gunnarsdóttir starfar sem skólastjóri í Ingunnarskóla. Hún hefur reynslu af aðferðum Uppbyggingar ábyrgðar og sjálfsaga úr starfi sínu sem skólastjórnandi og sem foreldri tveggja barna.

Guðlaug kynntist aðferðum Uppbyggingar ábyrgðar og sjálfsaga árið 2003 þegar hún starfaði sem aðstoðarskólastjóri í Álftanesskóla.

Guðlaug Erla lauk meistaraprófsrannsókn um áhrif starfsaðferða uppbyggingar á störf stjórnenda og skólabrag í grunnskólum árið 2007. Hún fékk  réttindi Chelsom Consultants  til að kenna þessar uppeldisaðferðir árið 2006 og hefur haldið fjölda námskeiða fyrir starfsmenn skóla og foreldra.

gudlaug.erla.gunnarsdottir (hjá) rvkskolar.is

Hildur Karlsdóttir útskrifaðist sem grunnskólakennari árið 1991 og með meistaragráðu í kennslufræði árið 2016. Hún hefur starfað sem kennari við Álftanesskóla frá því árið 1995, sem umsjónarkennari á yngsta stigi en lengst af sem umsjónarkennari á miðstigi.

Hildur tók virkan þátt í að innleiða Uppbyggingu ábyrgðar og sjálfsaga í Álftanesskóla og starfaði í stýrihóp innan skólans.

Hún fékk réttindi Chelsom Consultants til að kenna Uppbyggingu 1 námskeið árið 2007 og hefur haldið fjölda námskeiða fyrir starfsmenn skóla og foreldra í samstarfi við Guðlaugu Erlu Gunnarsdóttur.

hildurka (hjá) alftanesskoli.is

Sveinbjörn Markús Njálsson er grunnskólakennari og skólastjóri frá 1980 til 2019. Sveinbjörn Markús kynntist Uppbyggingu ábyrgðar og sjálfsaga árið 2001 þá skólastjóri Álftanesskóla og hóf innleiðingarferli þess með starfsfólki, nemendum og foreldrum skólans.

Árið 2008 tók Sveinbjörn Markús þátt í stofnun Félags áhugafólks um Uppbyggingu sjálfsaga og hefur verið gjaldkeri stjórnar félagsins frá stofnun þess.

Sveinbjörn Markús hefur haldið fjölda kynninga og skipulagt námskeið um Uppbyggingu ábyrgðar og sjálfsaga með innlendum og erlendum leiðbeinendum um allt land m.a. Diane Gossen og Judy Anderson.

Sveinbjörn Markús hefur mikla reynslu af vinnuaðferðum Uppbyggingar ábyrgðar og sjálfsaga úr starfi sínu sem skólastjórnandi. Hann fékk réttindi Chelsom Consultants 2018 sem leiðbeinandi í Uppbyggingu ábyrgðar og sjálfsaga. Sveinbjörn Markús er sjálfstætt starfandi sérfræðingur.

sveinbjorn.njalsson (hjá) gmail.com

Magni Hjálmarsson starfaði 36 ár í íslenska skólakerfinu en er nú á eftirlaunum. Hann lauk kennarapróf frá KÍ árið 1970, námi í uppeldisfræði og stærðfræði við DLH í Khöfn 1982-1984, BA í sérkennslufræðum frá KHÍ 1993 og uppeldisfræði með Exam Pæd gráðu við DLH í Khöfn 1995-1996.

Magni skipulagði ásamt Ragnari Gíslasyni skólastjóra Foldaskóla fyrstu heimsókn Diane Gossen til Reykjavíkur í maí 2000. Hann fór í námsferðir til Kanada 2000 – 2001 á vegum Diane Gossen og Judy Anderson og  fylgdi þeim eftir á fyrirlestrarferðum.

Árið 2001 fór Magni í hálfs árs leyfi frá Foldaskóla til Gabriola Island BC Kanada og skrifaði þar handbók fyrir kennarana um Uppbyggingu sjálfsaga “Treystum vor heit” og fékk réttindi Chelsom Consultants  til að kenna Uppbygging 1 námskeið. Magni hefur haldið fjölda námskeiða fyrir starfsmenn skóla og foreldra og hefur einnig setið í sjórn félagsins Uppbygging sjálfsaga.

Magni hefur samið og þýtt  bækur og kennsluefni um Uppbyggingu ábyrgðar og sjálfsaga og stofnaði Útgáfufélagið Sunnuhvol 2002 til að gefa það út. Uppbygging sjálfsaga keypti bókalager og útgáfurétt þess árið 2012. Magni er nú (2019) að vinna að þýðingu á bók William Glasser: Choice Theory frá 1998.

magni.hjalmarsson (hjá) gmail.com