Aðalfundur 2014

Aðalfundur félagsins var haldinn á Álftanesi, föstudaginn 16. maí. Mæting á fundinn var ágæt en ásamt venjulegum aðalfundastörfum voru að venju nokkrar kynningar á dagskrá. Hefð hefur skapast fyrir því að í tengslum við aðalfundi félagsins segi félagar frá skemmtilegum verkefni, ferðum sínum, námskeiðahaldi eða kynni hvernig þeir vinni með stefnuna í sínum skólum. Þessar kynningar hafa mælst vel fyrir og gefið félögum tækifæri á að kynnast betur, læra hver af öðrum og sjá nýjar leiðir til að vinna með hugmyndafræðina. Á fundinum kynnti Hafsteinn Hafsteinsson, sáttamiðlari, sáttaleið sem nýtt hefur verið í stað þess að fara hefðbundna leið í gegnum dómskerfið hjá ríkinu. Ragnhildur Gunnlaugsdóttir, leikskólanum Ökrum, sagði frá námsferð 77 manna hóps til Kanada sem sérstaklega var sniðin að þörfum leikskólastarfs og yngri nemenda. Sveinbjörn Markús, frá Álftanesskóla, sagði frá kærleiksdögum í skólanum og fór yfir plan vetrarins hjá þeim og Jóna Benediktsdóttir, Grunnskólanum á Ísafirði, sagði frá Lýðræðiskennslu í sínum skóla og sýndi myndband sem hægt er að nálgast á Youtube.
Breytingar voru gerðar á stjórn félagsins en Jóna Benediktsdóttir, formaður gaf ekki áfram kost á sér til formennsku áfram. Á fundinum var Elín Yngvadóttir, Grunnskólanum í Sandgerði kosinn formaður félagsins en auk hennar eru nú í stjórn; Sveinbjörn Markús Njálsson, gjaldkeri, Rut Indriðadóttir, Brekkuskóla, Laufey Karlsdóttir, Grundaskóla, Margrét Einarsdóttir, Kelduskóla og varamenn eru Jóna Benediktsdóttir, Grunnskólanum á Ísafirði og Þórhildur Kristjánsdóttir sem starfar hjá sveitarfélaginu Hornafirði.