Fimmtudaginn, 30. maí fór fram aðalfundur félags um Uppeldi til ábyrgðar – Uppbyggingu sjálfsaga. Sigríður Lára frá Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit sagði frá skemmtilegu verkefni sem kennarar í skólanum þar settu upp. Þeim fannst þurfa að hressa upp á uppbyggingarvinnuna og vildu gefa í. Kennararnir settu upp heildstætt verkefni þar sem þarfirnar og fleira úr hugmyndafræði uppbyggingar voru fléttaðar inn í fjölbreytt verkefni. Úr varð áhugavert og spennandi verkefni þar sem fjölbreyttum markmiðum var náð. Lóa Björg frá Grunnskólanum í Sandgerði sagði einnig frá áhugaverðu verkefni þar sem eineltisáætlun er byggð upp á hugmyndafræði Uppbyggingar. Um er að ræða eineltisáætlunina Skjöld. Áætlunin er heildstæð og nær yfir forvarnir, greiningu, skráningu, rannsókn, ferli, samtöl og uppbyggingu. Þannig er fyrirbyggjandi vinna, vinna með gerendur og þolendur byggð á verkfærum úr uppbyggingarstefnunni. Afar áhugavert verkefni sem hægt er að skoða nánar á www.sandgerdisskoli.is.
Að loknu kaffihléi tóku við almenn aðalfundarstörf. Jóna Benediktsdóttir var fundarstjóri og Laufey Karlsdóttir var skipuð ritari fundarins. Elín Yngvadóttir, formaður fór yfir skýrslu stjórnar og Sveinbjörn M. Njálsson, gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins. Ný stjórn var kosin til tveggja ára á síðasta ári og því voru engar breytingar á stjórninni að þessu sinni. Skoðunarmenn reikninga óskuðu eftir því að láta af störfum. Gunnlaugi Dan og Kristjáni í Borgarnesi voru þökkuð góð störf sem skoðunarmenn frá upphafi og við verkefninu tóku Sigríður Ragnarsdóttir og Bylgja Baldursdóttir.
Í skýrslu stjórnar var farið yfir helstu verkefni liðins árs, heimsókn Judy Adreson bar þar hæst ásamt endurútgáfu bóka og veggspjalda. Þá var farið yfir hvað helst væri á döfinni, námsefni Valgeirs Skagfjörð er væntanlegt til útgáfu á vef félagsins og von er á Cindy Brown til landsins í haust, hún mun halda námskeið á austurlandi sem og á suðvestur horninu. Námskeiðin verða auglýst fyrr en síðar á heimasíðunni og Facebook. Að lokum var sagt frá fyrirhugaðri hópferð til Boston haustið/vetur 2016. Um er að opna 80 manna hópferð á námskeið hjá Judy Anderson og Diane Gossen kringum 24. nóvember (Þakkargjörðarhátíð).