Aðalfundur félagsins var haldinn í Salaskóla 28. maí sl. Auk venjulegra aðalfundarstarfa fluttu góðir gestir erindi á fundinum og væntanleg Bostonferð á vegum félagsins var kynnt. Hrefna Björk Karlsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Salaskóla sagði frá uppbyggingarvinnu í Salaskóla, sýndi myndir úr skólastarfinu og fór yfir innleiðingu, vörður, hindranir og framvindu. Fanney D. Halldórsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Sandgerði fór yfir hugmyndafræði nokkurra kenninga og rannsóknir sem styðja hugmyndafræði uppbyggingar. Hún benti á tengingar og samhljóm milli nokkurra vinsælla stefna og ágæti þeirra. Valger Skagfjörð kom inn á fundinn og fylgdi eftir kennsluefni sínu „Gaman saman“ . Hann fékk fundargesti með sér í nokkra létta leiki og tók lagið með fólkinu. Undir öðrum málum sagði Hrönn, leikskólanum Arnarsmára í Kópavogi, frá verkefni sem hún vinnur að. Hún hefur þýtt efni sem gefið var út á flettispjöldum, með helstu þáttum uppbyggingar og hyggst gefa út handbók eða hefti sem hægt er að grípa til í dagsins önn.
Að loknu kaffihéli fóru fram venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Formaður flutti skýrslu stjórnar og sagði frá helstu verkefnum félagsins. Gjaldkeri kynnti reikninga og gerði grein fyrir helstu hreyfingum. Skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykktir. Sitjandi formaður, Elín Yngvadóttir gaf áfram kost á sér til formannssetu. Engin mótframboð bárust og verður hún því áfram formaður félagsins næstu tvö árin. Flestir stjórnarmenn gáfu aftur kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir félagið. Rut Indriðadóttir fer reyndar á bekk með varamönnum og inn kemur Guðbjörg Sveinsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Grindavík. Stjórnina skipa því ásamt formanni; Sveinbjörn Markús Njálsson, Margrét Einarsdóttir, Guðbjörg Sveinsdóttir, Laufey Karlsdóttir og varmamenn eru Jóna Benediktsdóttir, Þórhildur Kristjánsdóttir og Rut Indriðadóttir. Stjórnarmenn munu skipta með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar.
Mæting á fundinn var góð og vill stjórn koma á framfæri þakklæti til allra sem sóttu fundinn.