Uppeldi til ábyrgðar – starfsþróun í Garðaskóla

Starfsfólk Garðaskóla fer í starfsþróunarferð til Southend on Sea í Bretlandi í júní næstkomandi. Þangað kemur Judy Anderson og heldur tveggja daga námskeið um Uppeldi til ábyrgðar fyrir hópinn. Námskeiðið verður einnig sótt af starfsfólki Shoeburyness High School sem hýsir námskeiðið. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að fara yfir grundvallaratriði Uppbyggingarstefnunnar þannig að nýir starfsmenn kynnist kjarna málsins. Í verkefnum og umræðum verður unnið að því að allir þátttakendur skilji markmið aðferðarinnar og tileinki sér leiðir til að nýta hana í daglegu skólastarfi, jafnt í almennum samskiptum sem og í verkefnavinnu með nemendum.

Uppeldi til ábyrgðar hefur verið lagt til grundvallar skólabrag í Garðskóla í fjölda ára. Ragnar Gíslason sem var skólastjóri á árunum 2002-2014 innleiddi hugmyndafræðina með þvi að skipuleggja röð námskeiða sem allir starfsmenn tóku þátt í á skipulagsdögum að vori og hausti. Þessum námskeiðum var fylgt eftir með því að bjóða minni starfsmannahópum að sækja ítarlegri námskeið í Bandaríkjunum og þar heimsóttu hóparnir líka skóla sem unnu með Uppeldi til ábyrgðar. Alla tíð hefur áherslan í Garðaskóla verið lögð á að starfsmenn tali tungumál Uppbyggingarstefnunnar og að það birtist í öllum daglegum samskiptum innan skólans.

Ástæðan fyrir því að námskeið Garðaskóla er haldið í Shoeburyness High School eru góð tengsl skólanna sem kynntust í Evrópusamstarfsverkefni á árunum 2013-2015. Starfsfólk Garðaskóla mun fá kynnisferð um skólann og unnið er að áframhaldandi samstarfi. Garðaskóli hefur kynnt Uppeldi til ábyrgðar fyrir Bretunum og gefið þeim sýn á skapandi skólastarf þar sem nemendur bera ríka ábyrgð á sjálfum sér. Starfsfólk Garðaskóla hefur á móti kynnt sér hjá Shoeburyness aðferðir við að gera hæfniviðmið sýnilegri nemendum, auka leiðsagnarmat og efla innra mat skólans. Samstarfið hefur verið mjög gjöfult og ánægjulegt á báða bóga.

Námskeið Judy Anderson verður haldið í Shoeburyness High School í Southend on Sea dagana 13. og 14. júní kl. 9-15 báða daga. Miðvikudaginn 15. júní verður kynnisferð starfsmanna Garðaskóla um Shoeburyness High School. Hópferð Garðaskóla er fullbókuð en ef fleiri hafa áhuga á þátttöku í námskeiði Judy Anderson í Southend on Sea er mögulegt að kaupa á því sæti. Námskeiðsgjald er 20.000 krónur en gestaþátttakendur verða að gera eigin ráðstafanir um flug og gistingu.

Nánari upplýsingar veitir Brynhildur Sigurðardóttir skólastjóri Garðskóla í netfangi brynhildur@gardaskoli.is.